Á árinu 2022 hefst verkefni sem Drengjakór Reykjavíkur tekur þátt í ásamt Sofia Boys Choir í Búlgaríu (Хор на софийските момчета á búlgörsku). Kórinn í Sofia er aðalskipuleggjandi verkefnisins, sem gengur undir heitinu „The Boys are Singing“. Það verður fólgið í heimsókn Drengjakórs Reykjavíkur til Búlgaríu á árinu 2022, heimsókn Sofia Boys Choir til Íslands sumarið 2023 og kórahátíð þessara og fleiri kóra um haustið sama ár.
Verkefnið hlýtur styrk samkvæmt áætlun um stuðning við menningarverkefni sem EFTA-ríkin í EES-samstarfinu (Ísland, Noregur og Liechtenstein) veita fjármuni til í gegnum styrkjakerfið EEA Grants. Tilgangur áætlunarinnar er að auka samstarf og menningarsamskipti milli þeirra þriggja landa og ýmissa landa í Austur-Evrópu sem styrkjunum er beint til.
Gert er ráð fyrir að stjórnendur kóranna hafi með sér samstarf um undirbúning tónleika og að kórarnir æfi sameiginlega fyrir stærstu viðburðina. Í tengslum við verkefnið verður tónleikahald í höfuðborgum beggja landanna en einnig utan þeirra. Eitt markmið verkefnisins er einmitt að auka framboð menningarviðburða á fámennari stöðum.
Verkefnið er frábært tækifæri fyrir Drengjakórinn sem hefur þegar hafið undirbúning fyrir heimsókn kórsins til Búlgaríu í haust.