Um kórinn 2023-01-11T12:16:08+00:00

Kórstarfið

Einkunnarorð kórsins og eru ,,Syngja eins og englar, hegða sér eins og herrar og leika sér eins og strákar“

Kórinn, sem í upphafi hét Drengjakór Laugarneskirkju var stofnaður 6. október 1990, af Ronald Turner, þáverandi organista Laugarneskirkju sem fékk til þess dyggan stuðning frá þáverandi sóknarpresti sr. Jóni Dalbú Hróbjartssyni og sóknarnefnd kirkjunnar.  Stofnfélagar voru 15 drengir á aldrinum 10-12 ára, víðs vegar af höfuðborgarsvæðinu. Haustið 1994 tók Friðrik S. Kristinsson við kórstjórninni og stjórnaði starfinu til 2015. Haustið 2001 flutti kórinn aðsetur sitt í Neskirkju þar sem hann starfaði í þrjú ár og nefndist þá Drengjakór Neskirkju. 2004-2015 fór kórstarfið fram í Hallgrímskirkju og hefur eftir það eingöngu notað nafnið Drengjakór Reykjavíkur. Haustið 2015 tók Steingrímur Þórhallsson við stjórn kórsins og hafa æfingar síðan farið fram í Neskirkju. Stjórnandi kórsins síðan 2019 er Þorsteinn Freyr Sigurðsson. Kórinn vex jafnt og þétt og eru meðlimir nú á aldrinum 8-15 ára. Sungin er tónlist af ýmsum toga, bæði trúarleg og veraldleg, gömul og ný. Flettað er inn fræðslu um tónlist og sönggleðin er í fyrirrúmi.

Kórinn heldur árlega jóla- og vortónleika auk þess að koma fram við hin ýmsu tilefni og taka þátt í fjölbreyttum verkefnum. Þannig tók kórinn þátt í uppfærslu Íslensku óperunnar á Tosca eftir Puccini árið 2017 og kom fram í Kórum Íslands sama ár, söng á tónleikum með Íslenskum strengjum í Norðurljósasal Hörpu haustið 2022 og mun stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í júní 2023. Kórinn hefur sungið inn á plötur, nú síðast jólaplötuna Winter Light með Olga Vocal Ensemble og kemur fram í messum, á ráðstefnum, sem gestakór og við fleiri tilefni sem til falla.

Öflugt foreldrafélag heldur utan um starfsemi kórsins í samvinnu við stjórnanda hans. Mikilvægt er að foreldrar séu virkir þátttakendur í starfsemi kórsins. Ferðalög eru fastur þáttur í starfseminni en kórinn ferðast bæði innanlands og fer erlendis. Þessi ferðalög hafa verið fjármögnuð með öflugri fjáröflun svo ekki komi til beinna fjárútláta foreldra vegna þeirra.

Kórgjöld eru ákveðin á aðalfundi foreldrafélagsins ár hvert auk þess þurfa foreldrar og drengir að taka þátt í reglubundinni  fjáröflun.

  • Æfingar fara fram einu sinni í viku á mánudögum kl. 16:45-18:15
  • Æfingarnar eru í Neskirkju
  • Stjórnandi kórsins er Þorsteinn Freyr Sigurðsson
  • Kórgjöld fyrir starfsárið 2021-2022 eru 8000 kr. á mánuði sem innheimtast í upphafi annar. Hægt er að dreifa greiðslum í samráði við gjaldkera.