Drengjakór Reykjavíkur sat ekki auðum höndum á síðasta starfsári þrátt fyrir heimsfaraldur heldur var æft þegar reglugerðir leyfðu og heimavinna í boði kórstjórans unnin þess á milli. Þegar rofaði til var hægt að taka þátt í spennandi verkefnum og má þar nefna kvikmyndatökur fyrir myndina Abbababb, upptökur fyrir tónlist í sjónvarpsþáttum og væntanlegan jóladisk Olgu Vocal Ensemble. Síðast en ekki síst tókst okkur að fara í skemmtilegt söngferðalag til Ísafjarðar í maí þar sem við hittum Skólakór Ísafjarðar og héldum með þeim vel heppnaða tónleika í Ísafjarðarkirkju.

Kórinn á enn í vændum spennandi starfsár! Næsti stóri viðburður eru jólatónleikar, „Þú veist – svona jóla“,  með Kvennakórnum Kötlu, Karlakórnum Esju og Olgu Vocal Ensemble sem fara fram í Langholtskirkju 12. og 13. desember. Tónleikarnir voru síðast haldnir árið 2019 og komust þá færri að en vildu.

Á nýja árinu undirbýr kórinn 30 ára afmælistónleika, DKR 30+2, þar sem kórinn kemur fram ásamt fyrrum kórmeðlimum og öðrum gestum. Einnig er í bígerð samstarfsverkefni DKR og Drengjakórs Sofiu frá Búlgaríu en stefnt er á söngferðalag til Búlgaríu haustið 2022 ef allt gengur eftir.

DKR tekur vel á móti nýjum meðlimum – hafið samband á drengjakordkr@gmail.com.

2021-10-14T10:47:04+00:00 október 14th, 2021|