Nýr kórstjóri Drengjakórs Reykjavíkur

Drengjakór Reykjavíkur hefur sitt 28. starfsár núna í haust undir stjórn nýs kórstjóra – Helga Rafns Ingvarssonar.
Helgi Rafn Ingvarsson er að flytja heim til Íslands erftir 7 ára dvöl á Englandi þar sem hann hefur starfað sem tónskáld, stjórnandi, kennari og numið tónsmíðar til doktorsgráðu í Guildhall, School of Music and Drama í London. Í námi sínu sérhæfði hann sig m.a. í að vinna með söngvurum og með raddir almennt.
Sumir muna ef til vill eftir Helga er hann gerði garðinn frægan þegar hann komst í úrslit fyrstu þáttaraðar Idol Stjörnuleitar á Stöð 2.
Helgi Rafn hlakkar til að starfa með strákunum og framundan er spennandi starfsár hjá kórnum með m.a. samstarfi við Karlakórinn Esju, frumflutningi á nýrri tónlist eftir Gunnar Karel Másson í nýrri leiksýningu, og margt fleira.

Hjörtun slá í takt

Að vera í barnakór er gjöf sem gefur allt lífið. Ávinningurinn er margvíslegur. Meðlimir öðlast m.a. aukinn skilning á tónlist sem hjálpar þeim að njóta tónlistar í framtíðinni. Einnig getur söngur verið streitulosandi og eflt samvinnu hæfileika og innsæi. Í söng kemst maður fljótt í flæði og gleymir stað og stund. Í kórstarfi samræmast ekki einungis raddir heldur hafa rannsóknir einnig sýnt að hjörtu kórmeðlima fara að slá í takt eftir langvarandi samsöng, en það er samstillta kór öndunin sem verður til þess. Þegar við syngjum á útöndun fer púlsinn niður og við innöndun eykst hraðinn á púlsinum. Þessum áhrifum má líkja við góða yogaæfingu eða hugleiðslu.

Áhrif kórstarfs ná jafnvel lengra því þess eru dæmi að foreldrar hafa nánast rifist um að fara með barnið sitt á kóræfingu. Það er góð aftenging frá amstri dagsins að setjast niður á kóræfingu, jafnvel loka augunum og hlýða á. Það er auðvitað líka frábær félagsskapur að vera í kór og einstakt í nútíma samfélagi að vinna saman í jafn breiðum aldurshópi og býðst í kórastarfinu. Í kórnum eru drengir á aldrinum 8-16 ára sem koma víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu og einn meðlimur kemur vikulega frá Borgarnesi til að taka þátt.
Æfingar á nýju starfsári hefjast þann 10. september og æft er einu sinni í viku.

Um kórinn

Kórinn var stofnaður árið 1990 af Ronald Turner, þáverandi organista Laugarneskirkju undir nafninu Drengjakór Lauganeskirkju. Haustið 1994 tók Friðrik S. Kristinsson við kórstjórninni og stjórnaði starfinu til 2015. Árið 2001 flutti kórinn aðsetur sitt í Neskirkju þar sem hann starfaði í þrjú ár og nefndist þá Drengjakór Neskirkju. Kórstarfið fluttist svo á árunum 2004-2015 í Hallgrímskirkju og starfaði þar sem Drengjakór Reykjavíkur. Haustið 2015 tók Steingrímur Þórhallsson við stjórn kórsins og fluttist hann þá aftur í Neskirkju þar sem hann starfar enn í dag og mun starfa þar áfram undir stjórn Helga Rafns Ingvarssonar

2018-10-18T12:33:14+00:00 október 18th, 2018|