Um kórinn 2024-05-28T17:34:18+00:00

Kórstarfið

Einkunnarorð kórsins og eru ,,Syngja eins og englar, hegða sér eins og herrar og leika sér eins og strákar“

Drengjakór Reykjavíkur var stofnaður í Laugarneskirkju árið 1990. Hann er eini starfandi drengjakór á Íslandi og hefur því nokkra sérstöðu í barnakórastarfi á Íslandi þar sem stúlkur eru jafnan í meirihluta. Kórinn er vettvangur fyrir söngelska stráka þar sem þeir geta þroskað tónlistarhæfileika sína í faglegu samhengi og í góðum félagsskap annarra syngjandi drengja. Kórinn vex jafnt og þétt og eru meðlimir nú á aldrinum 8-17 ára. Sungin er tónlist af ýmsum toga, bæði trúarleg og veraldleg, gömul og ný. Fléttað er inn fræðslu um tónlist og sönggleðin er í fyrirrúmi. Stjórnandi kórsins síðan 2019 er Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenórsöngvari og meðleikari á píanó er Laufey Sigrún Haraldsdóttir.

Kórinn hefur haft aðsetur í Neskirkju frá 2015 en frá og með hausti 2024 munu æfingar fara fram í Háteigskirkju. Í bígerð er undirbúningsdeild fyrir drengi í 1.-2. bekk grunnskóla en Anna Hugadóttir tónlistarkennari og víóluleikari mun hafa umsjón með henni.

Drengjakór Reykjavíkur heldur árlega jóla- og vortónleika auk þess að koma fram við hin ýmsu tilefni og taka þátt í fjölbreyttum verkefnum. Þannig tók kórinn þátt í uppfærslu Íslensku óperunnar á Tosca eftir Puccini árið 2017 og kom fram í sjónvarpsþættinum Kórum Íslands sama ár.  Haldið var upp á 30 ára söngafmæli með veglegum afmælistónleikum vorið 2022 og söng kórinn á tónleikum með Íslenskum strengjum í Norðurljósasal Hörpu um haustið.  Drengjakórinn stóð fyrir alþjóðlegri drengjakórahátíð, The Boys are Singing, með Sofia Boys Choir árin 2022-2023, ferðaðist til Búlgaríu haustið 2022 og tók á móti SBC á Íslandi í júní 2023. Þá um vorið söng kórinn með í Carmina Burana með fjölda annarra kóra og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þess utan hefur Drengjakórinn komið fram sem aukaleikarar í kvikmyndinni Abbababb, komið fram á hlustendaverðlaunum FM957 og hefur sungið inn á plötur, nú síðast jólaplötuna Winter Light með Olga Vocal Ensemble. Kórinn kemur reglulega fram í messum, á ráðstefnum, sem gestakór og við fleiri tilefni sem til falla.

Öflugt foreldrafélag heldur utan um starfsemi kórsins í samvinnu við stjórnanda hans. Mikilvægt er að foreldrar séu virkir þátttakendur í starfsemi kórsins. Ferðalög eru fastur þáttur í starfseminni en kórinn ferðast bæði innanlands og fer í söngferðalög til útlanda. Þessi ferðalög hafa verið fjármögnuð með öflugri fjáröflun foreldra og drengja.

Kórgjöld eru ákveðin á aðalfundi foreldrafélagsins ár hvert.

  • Æfingar fara fram í Háteigskirkju einu sinni í viku á mánudögum kl. 16:45-18:15.
  • Undirbúningsdeild verður í Setrinu í safnaðarheimili Háteigskirkju kl 16:15-17, einnig á mánudögum.
  • Kórgjöld fyrir starfsárið 2023-2024 voru 8000 kr. á mánuði. Systkinaafsláttur er 50%. Kórgjöld í undirbúningsdeild frá og með hausti 2024 verða 4500 kr. á mánuði. Kórgjöld innheimtast í upphafi annar. Hægt er að dreifa greiðslum í samráði við gjaldkera.